Skoða Gestabók Skrifa Í Gestabók

Friday, May 26, 2006 

Skyndiákvarðanir og Monteverde...

Jæja, tími til kominn að setja eitthvað inn um okkar frábæru ferð til Monteverde sem við fórum síðustu helgi. Síðasta föstudag vorum við heima að vinna og var planið að vera heima alla helgina. Hinsvegar leiddist okkur frekar þar sem efnið var ekki beint að heilla okkur þannig við ákváðum að skella okkur til Monteverde þar sem við vorum búnar að heyra að væri alveg magnaður staður. Þetta er sem sagt verndaður skógur sem samanstendur af tveimur þjóðgörðum. Við vorum búnar að heyra að þarna væri hægt að fara í besta canopy túr í öllu landinu þannig það var alltaf á planinu að fara þangað. Eins og alltaf var þetta algjör skyndiákvörðun og þurftum því að henda öllu ofan í tösku og bruna af stað til þess að ná rútunni frá San José.

Við vorum þó með nokkrar áhyggjur því við komum á staðinn eftir myrkur og höfðum enga gistingu eða hugmynd um hvar væri hægt að fá slíka. Við þurftum hinsvegar ekki að hafa neinar áhyggjur því þegar við komum tók á móti okkur skari af fólki með allskonar gylliboð um frábæra gistingu. Við ákváðum að ákveða ekki neitt strax, tókum bæklinga frá öllum og ætluðum að fara yfir þetta í rólegheitum. Hinsvegar varð einn maðurinn eftir og undirbauð öll hin hótelin þannig við gistum á frábærum stað fyrir einungis $5 á nóttina! Vorum með heitt vatn og alles sem var algjör lúxus.

Á laugardeginum ákváðum við stöllur að skella okkur í Canopy túr þar sem maður flýgur um loftin blá í gegnum skógin á tilgerðum vírum og sér skóginn með augum fuglanna. Þetta var alveg mögnuð ferð og skemmtum við okkur konunglega þó maður hafði verið á köflum nánast að pissa í buxurnar af hræðslu.

Bara magnað útsýni!!


Eins og sést á myndinni var Olga algjör prófessjónal, það er eins og hún hafi ekki gert neitt annað allt sitt líf :)

Hinsvegar var ein óvænt uppákoma þegar túrinn var við það að enda. Allir þurftu að príla upp á einhvern rosalegan pall þar sem maður var hengdur upp á einhvern spotta sem var bundinn í tré og labba fram af pallinum og sveifla sér eins og Tarzan gerði! Ég held að það sé eitt að því rosalegasta sem ég hef gert enda var hræðilegt að þurfa að labba fram af pallinum!!!


Eins og sést á myndinni er spottinn ekki beint stuttur og ég held að ég sé ekki að ýkja þegar ég segji að ég hafi nánast pissað á mig úr hræðslu eins og sést á næstu mynd!


Hinsvegar var þetta alveg þess virði og við skemmtum okkur konunglega í tæpa 3 tíma þar sem við svifum um loftin blá.

Eftir túrinn fórum við síðan í gönguferð um skóginn sem var alveg magnaður.


Eins og þið sjáið þá er engin smá stærð á þessum trjám



Útsýnið frá hótelinu okkar

Annars var Allan danski gaurinn að koma til okkar og bjóða okkur með sér í ferð til Montezuma í dag. Ég held bara að við ætlum að skella okkur þar sem við höfum verið svo duglegar að vinna alla vikuna, sem við eyddum nánast allri í San José í upplýsingaöflun. Þannig nú þurfum við að drífa okkur af stað heim, pakka saman og bruna til San José þar sem enn nýtt ævintýri mun hefjast....;)
Ég bið bara að heilsa ykkur öllum og farið vel með ykkur.... :) og auðvitað sendir Olga ykkur öllum kveðjur...;)
-Eva

Monday, May 22, 2006 

Nú er leiðinlegt á bókasafninu... Eva er veik heima og bókasafnskonan mætti í svörtu.

Við erum búnar að gera heilmikið undanfarna daga. Á þriðjudaginn heimsóttum við "University for peace" og á fimmtudaginn fórum við með frjálsum félagasamtökum sem heita Andar í ferð til að skoða verkefnið þeirra. Á föstudaginn fórum við svo til Monte Verde í túristaferð og komum þaðan í gær. Mögnuð vika!


University for Peace

Við gengum skefldar inn í skólann. Í anddyrinu voru tvær bandarískar stelpur sem stóðu yfir einhverjum aumingja hundi. Með "röddinni" töluðu þær við hann og sögðu honum hversu ofboðslega cute hann væri, ég held ég hafi aldrei heyrt eins skræka rödd, aldrei. Þegar við komum inn fyrir var andrúmsloftið þannig að við bjuggumst við að sjá fólk valhoppandi um syngjandi "we love peace". Fólkið valhoppaði hinsvegar ekki og var mjög almennilegt og fínt.

Skólinn er pínulítill. Samband kennara og nemenda er mjög gott og þar sem þjóðernin í skólanum eru um 60 er andinn skemmtilegur. Námið virkar ótrúlega spennandi en það er hægt að kynna sér það á heimasíðunni þeirra: http://www.upeace.org Það er svo íslenskur prófessor við skólann, Guðmundur Eiríksson sem við hittum og borðuðum með hádegismat. Þeir nemendur sem við hittum sögðust ánægðir með skólann, þó þeir reyndar virtust nokkuð uppgefnir svona í annarlok. Náttúran var ótrúleg og það er eflaust erfitt að finna betra námsumhverfi. En hér koma nokkrar myndir úr skólanum og af svæðinu :)





Andar

Við vöknuðum klukkan 5 á fimmtudaginn. Við skelltum okkur til San José þar sem við hittum Esteban, sem vinnur hjá Andar. Við keyrðum svo með honum í ca 3 tíma til lítils sveitaþorps í Cartagena, nálægt Guápiles. Þar kynntumst við verkefninu þeirra og hittum skemmtilegt fólk. Esteban var ofur hjálplegur og loksins erum við komnar með heilmiklar upplýsingar sem við getum unnið með.

Vandamálið á þessu svæði hefur mikið verið skipulagsleysi í landbúnaði. Ekki hefur verið passað upp á að hvíla jarðveginn nægilega og hann því eyðilagst. Margir á svæðinu hafa hætt ræktun og eru nú að vinna á risa bananaplantekrum í eigu erlendra aðila. Mikið er notað af efnum til að fæla burt skordýr en þau hafa mjog slæm áhrif á fólkið sem vinnur þar (en ýmis æxli og önnur veikindi eru algeng á þessu svæði). Flugvélar einfaldlega fljúga yfir og sturta hinum og þessum efnum yfir plantekrurnar... og vinnufólkið.

Andar er að reyna að hvetja fólk til að stunda ræktun að nýju. Þeir hjálpa við að skipuleggja akrana og ræktunina. Í dag kaupir fólkid á svæðinu 90% af sínum matvörum en Andar vill að hlutfallið lækki niður í ca 50% og tad stundi sjálfsþurftarbúskap af meira magni. Það sem fólkið ræktar umfram það sem það neytir getur það svo selt. Andar hjálpar til í slíkum markaðsmálum og Esteban tók einmitt heilmikið af vörum með sér aftur til San José þegar við fórum heim um eftirmiðdaginn.

En já, ykkur finnst þetta eflaust geeegt spennandi og áhugavert ;) En við ætlum að skoða þetta betur og reyna að meta hvað Andar er að gera. Hvort þau séu að hjálpa þessu fólki eða bara með yfirgang og að reyna að troða sínum hugmyndum á fólkið sem nennir ekki að rækta... Sjáum til :) En hérna koma allavega nokkrar myndir:

Á leidinni til Cartagena

Hér er fólk varad vid ad vera á ferli tar sem búast megi vid rignandi eitrefnum

Starfsmadur Andar sem bjó á svaedinu. Mjog vidkunnanlegur madur, hann sagdi okkur heilmargt.

Hér er búid til vín

Og svona er vínid búid til! Get ekki sagt ad tetta hafi verid sérstaklega bragdgott, en jaeja...

Eva og Esteban a leidinni heim

Á helginni fórum við til Monte Verde, gistum á lúxus hóteli fyrir engan pening og töluðum við útlendinga alla helgina. Þetta var ótrúlegaótrúlega mikill túristastaður, en gullfallegur ... og við fórum í CANOPY!! :) :) ég á eftir að setja myndirnar inn í tölvuna, og þetta er orðin allt of löng færsla þannig að Monte Verde lýsing kemur síðar.

En já - þá er það skýrslan!

Bless i bili

Olga

Thursday, May 11, 2006 

Framhaldssagan ógurlega....



Ef satt skal segja þá veit maður eiginlega ekki hvar maður á að byrja til þess að lýsa helginni sem leið. Síðasta helgi var sem sagt löng helgi þar sem það var frídagur á mánudaginn. Við vissum nú ekki af þessum degi fyrr en á laugardeginum en ákváðum þá að skunda af stað til Tortuguero sem er þjóðgarður við Karabískahafið. Til þess að komast þangað þurftum við að ferðast í um 4 tíma með rútu og 2 tíma með báti þar sem ekki er hægt að komast á staðinn á bílum. Við vorum ekki vissar hvort við mundum ná síðasta bátnum til staðararins en við ákváðum að slá til og athuga hversu langt við kæmumst og redda okkur þá gistingu ef til þyrfti.


Við héltum af stað til San José, vissar um að þetta yrði sko frábært ævintýri. Í rútunni sat við hliðina á okkur þessi viðkunnarlegi maður sem var í því að blikka til okkar og brosa. Þegar rútan síðan stoppaði í San José benti hann Evu á að fara á undan sér. Hún dreif sig upp en eitthvað misskildi hún manninn því hann smeygði sér á undan henni. Olga sat enn í sætinu sínu, eitthvað að vesenast með bakpokann sinn. Allt í einu "missti" herramaðurinn fyrir framan Evu eitthvað á gólfið. Hann byrjaði að leita á gólfinu og ýta Evu aftur á bak, sem var þó mjög erfitt þar sem rútan var pökkuð af fólki sem var að koma sér út.

Maðurinn gerði ekki annað en að strjúka tærnar og fæturna á Evu. Eva var nú ekki alveg sátt og frá henni fóru heyrðast mikil óhljóð sem urðu til þess að Olga lítur upp. Þá sér Olga að maðurinn fyrir aftan Evu var að ræna hana þannig hún gólar yfir allt; EVA, MAÐURINN ER AÐ RÆNA ÞIG!!! Eva sá þá að maðurinn fyrir aftan hana hélt á veskinu hennar en maðurinn fyrir framan hana skaust út. Maðurinn fyrir aftan brá heldur betur í brún þegar hann fattaði að við sáum hann halda á veskinu þannig hann missti það í sætið við hliðina á sér og brunaði út. - Þeir voru heldur betur í góðu "team-i" þeir félagar en við stöllur sáum sko við þeim, enda ekki fyrir alla að kássast upp á okkur víkingastelpurnar!!!
Hver segir svo að það borgi sig ekki að vera hávær?!?!?! ;)

En þetta endaði þó sem betur fer vel og héldum áfram ferðinni með peningana í sokkunum.

Næsti áfangastaður var bær sem heitir Cariari. Báturinn sem við þurftum að taka þaðan hafði farið fyrir ca 2 tímum og sá næsti fór ekki fyrr en 6 um morguninn. Við fundum okkur því þetta fínasta hostel, komum okkur fyrir og fórum rúnt um bæinn. Konan sem átti hótelið vildi allt fyrir okkur gera og bauð okkur að fara með dóttur sinni og vini á hátíð sem var rétt fyrir utan borgina. Við ákváðum að slá til enda voru þær mæðgur alveg frábærar. Hátíðin var yndisleg þar sem fólk var í því að dansa salsa og reggieton (vitum ekkert hvernig þetta er skrifað) hinsvegar þurftu allir karlmenn að ganga í gegnum líkamsskoðun til þess að komast inn, en það var nóg að kíkja ofan í töskurnar hjá okkur stelpunum.

Þegar leið á kvöldið fór Eva á salernið. Skyndilega stöðvaðist tónlistin og baðherbergið fylltist af trylltum stelpum. Ekki vissi hún hvað var að gerast en einhver sagði að það væru einhver slagsmál í gangi. Hún ákvað þar af leiðandi að hraða sér til Olgu og athuga hvort það væri ekki allt í lagi hjá henni. Olga var hólpin, en það höfðu þó ýmsir hlutir gerst sem litlu saklausu íslendingunum óraði ekki fyrir. Fyrir utan svæðið þar sem hátíðin var haldin varð skotárás. Ekki halda að við höfum verið í neinni hættu, en strákurinn sem við fórum með sagði allt í einu: I don't like this.....I don't like this..
Olga var nú ekki viss hvað hann var að meina og spurði hvað væri í gangi...og þá sagði gaurinn: I don't like this shooting!!!! "SHOOTING??" Já, við erum alveg fáránlega ljóshærðar og bláeigðar.

Þegar Eva kom til baka stóð Olga á gati þar sem hún hafði séð starfsmennina henda sér í gólfið og heyrt einhver læti, en þó ekki órað fyrir að þarna hafi verið skotáras.

En allt er gott sem endar vel, enginn særðist að okkar vitund og hátíðin hélt áfram eins og ekkert hafði í skorist. Verðum þó að viðurkenna að við stöllur vorum ekkert mikið æstar í að vera á staðnum mikið lengur enda fórum við stuttu eftir þetta.


Morguninn eftir vöknuðum við hressar og kátar að vanda, búnar að hrista af okkur viðburði gærdagsins og tilbúnar að takast á við daginn. Viðtók 2 klst. rútuferð um HRYLLILEGA vegi, en með rosalega fallegu útsýni, meðal annars yfir banana- og kaffiplantekrur. Eftir þá ferð þurftum við síðan að labba í um 20 mín til þess að taka bátinn til Tortuguero. Bátsferðin var hreint út sagt ótrúleg. Sáum fullt af dýrum á leiðinni og heyrðum í öpunum í trjánum rétt fyrir ofan okkur!! Náttúrufegurðin var hreint út sagt ótrúleg. Eva einmitt sagði að hefði hún verið búin að koma hingað áður en hún tók próf í náttúruheimspeki þá hefði úrlausn prófsins orðið allt önnur.

Tortuguero er sem sagt algjör náttúruperla. Í þorpinu sjálfu búa um 700 manns þar sem flestir byggja viðuværi sitt á túrisma. Þegar þangað var komið tók á móti okkur þeldökkur maður með rasta. Hann kyssti okkur í bak og fyrir og bauð okkur velkomnar. Hann bauð okkur hótelgistingu sem var 5 skrefum frá ströndinni á góðu prísi og var tilbúinn að gera allt fyrir okkur.

Við ákváðum að leigja okkur Kanóa til þess að róa um sýkin, njóta náttúrunnar og skoða dýralífið og VÁ...!!!! Þessu er ekki hægt að lýsa með orðum. Á meðan við sigldum um sýkin voru apar að stökkva og hlaupa um í trjánum fyrir ofan okkur, krókódílar að sigla við hliðina á okkur, flugfiskar að stökkva um í vatninu ásamt því sáum við fullt af eðlum, fugla og fiðrildi í öllum regnbogans litum. Hreint út sagt ótrúlegt!

Daginn eftir ákváðum við þó líka að leigja okkur kajaka enda náttúran svo ótrúleg þarna í kring og því ekki hægt að gera annað en að njóta hennar.

Við komum síðan heim aftur til Heredia seint á mánudagskvöldi þar sem við þurftum að halda áfram að vinna að verkefninu okkar.
Við höfum verið á fullu að reyna að redda okkur lista yfir NGO (non governmental organizations) sem eru að vinna hérna í Costa Rica, en það hefur ekki gengið snurðulaust fyrir sig. Við fórum til San José í gær til þess að hitta NGO sem hefur sérhæft sig í að hjálpa samtökum með lagarleg atriði. Þar fengum við mjög dýrmætar upplýsingar um hvað þarf til til þess að stofna NGO og hvaða reglum þau þurfa að fylgja.

Við fórum síðan á stað sem hann benti okkur á þar sem öll NGO þurfa að skrá sig til þess að athuga hvort við gætum fengið þann lista. Hinsvegar eftir mikið bras, og mikinn þvæling kom í ljós að við mundum þurfa borga $500 til þess að fá þessar upplýsingar. Það kom þó ekki að sök því ef CINPE sækir um þessar upplýsingar þá getum við fengið þær ókeypis :) Núna erum við þar að leiðandi að vinna að því að fá þessar upplýsingar....!

En jæja, þetta er orðið allt of langt....látum fylgja með nokkrar myndir úr ferðinni okkar....

Þessi mynd er tekin á göngunni að bátnum

Báturinn sem við sigldum með til Tortuguero, það var ekkert rosalega mikið vatn í sýkinu þannig það kom ekki ósjaldan fyrir að við strönduðum, en þá var bara hoppað úr bátnum og honum ýtt aftur af stað.

Hið ljúfa líf við Karabískahafið......


Lifið heil og sæl..
-Eva og Olga

Monday, May 08, 2006 

Lífid í Costa Rica

* rán
* NGO fundid
* 7 símanúmer
* 2 sálufélagar
* skotárás
* magnadar bátsferdir
* strandad í bátsferd
* ofsóknir
* krókódílar

... framhald sídar ...

Kvedja
Eva and Olga .. in the jungle

PS: okkur taetti ad gaman ad heyra frá Nica... Have you gone native? :)

Thursday, May 04, 2006 


Flokkun frjálsra félagasamtaka í fullum gangi...
Heimsóknir í næstu viku...

Emilina átti afmæli í gær. Olga gamalmenni lá heima slöpp og illa útleikin en Eva fór í afmælisveisluna fyrir hönd okkar Íslendinga. Veislan var nokkuð alþjóðleg og átti hver gestur að koma með hefðbundinn rétt frá eigin landi - ekki með kjöti... Hahaha... Good luck Iceland.

Alltaf eru fleiri tilraunir gerðar til að heilla okkur vestrænu meyjar... Misvel heppnaðar þó... Oftast hörmulegar...

* You are more beautiful than a butterfly
* You’ve got fire in your eyes... you are so cute... Do you have allergy?
* Hi, what is your name? Are you married?
* Hi what is your name? Where do you live? Where in Heredia? Where? Where?
* Eva? Hi, I’m Adam.
* You are so beautiful. Your skin, your hair, your eyes… What do you think about me? Do you like my eyes? Do you like my body?

Sumir virðast líka pínu feimnir…
* Hi, my friend thinks you are beautiful
* Hi, I like your friend, does your friend want to dance?
* I like your friend’s front

Æjæjæj

En já, best að fara að vinna! Skellum inn nokkrum myndum, héðan og þaðan :)

Segir myndin ekki allt sem segja þarf? :S

Skólinn okkar

Skandinavíugengið

Já, rigningartímabilið að hefjast


Kveðja frá Costa Rica

Wednesday, May 03, 2006 

Glókollarnir fimm


Síðasta föstudag sátum við Olga hér á bókasafninu á kafi í vinnu þegar Kári hafði samband og sagði að þau væru að fara leggja af stað til Costa Rica eftir um það bil 2 klukkutíma. Ég hugsa að flest allir hefðu tekið sér meiri tíma til að undirbúa ferðalagið, en þess var nú ekki þörf hjá þeim :)


Planið var að þau myndu koma til San José um klukkan 9 og þaðan áttu þau að taka leigubíl til Heredia og hitta okkur fyrir utan súpermarkaðinn sem er rétt hjá íbúðinni okkar, því eins og þið munið að þá eru engin heimilisföng eða húsnúmer hérna. Allt fór á fullt hjá okkur stöllum að skrúbba gólf og þrífa, redda dýnu og ýmsum hlutum til þess að gera húsakynni okkar boðlegri. Klukkan 9 vorum við stöllur komnar fyrir utan búðina og byrjuðum að bíða, og bíða og bíða en hvergi bólaði á þeim. Það var ekki hægt að hringja í þau þar sem síminn þeirra virkar ekki hér í Costa Rica, og hérna þarf maður að vera ríkisborgari til þess að fá símanúmer. Þannig við vorum algjörlega sambandslaus við þau. En sem betur fer þá komu þau um klukkan 11 um kvöldið, þreytt en sælleg eftir MJÖG langa rútuferð.

Á laugardeginum byrjuðum við daginn snemma og fórum með þau í túr um Heredia. Emelina, dóttir Hannia, kom til okkar og mælti með nokkrum stöðum sem við gætum sýnt þeim og var ákveðið að fara til Jaco sem er um tvær og hálfa klst frá San José, og eyða deginum á ströndinni. Hinsvegar eftir að hafa styrkt efnahaginn hér í Heredia var ákveðið að skunda heim, pakka dótinu saman og leggja af stað til Jaco svo við gætum alveg pottþétt nýtt okkur daginn út í ystu æsar. Hinsvegar föttuðum við ekki að þetta var löng helgi og því var nær ómögulegt að finna hótelherbergi þegar við komum á áfangastað. Eftir langa leit, pirraðan leigubílsstjóra, fundum við hótel sem átti herbergi fyrir þrjá en sem við máttum 5 gista í. Við getum allavega sagt sem svo að orðatiltækið þröngt mega sáttir sitja átti mjög vel við þessa ferð.

Dagurinn í Jaco var alveg frábær. Fórum á ströndina þar sem strákarnir leigðu sér brimbretti en við stelpurnar sleiktum sólina. Ég er ekki frá því að magavöðvarnir fengu góða æfingu þegar við kútveltumst úr hlátri að sjá tilþrifin hjá strákunum. En eins og þeir sögðu að þá er þessi íþrótt alveg gríðarlega erfið og nánast ómögulegt að læra á svona stuttum tíma, en þeir voru svo sannarlega stoltir þegar dagurinn var að kveldi kominn.



Þegar heim var komið til Heredia var síðan brunað út í næsta apótek og þar keypt after sun þar sem við öll höfðum fengið okkar skerf af sól, þó sumir meira en aðrið -þrátt fyrir að nota vörn númer 45!! Við höfum fengið fréttir af þeim frá Nicaragua að þar sé Binni að hafa hamskipti....!!

Þau kvöddu okkur á mánudagsmorguninn þar sem þau þurftu að skunda af stað til þess að undirbúa ferð sem þau fara með ACRA.

Þó leiðinlegt hafi verið að kveðja þau 3 þá var Hannia búin að bjóða okkur í morgunmat heim til sín. Ég held að óhætt sé að segja að þetta var einn besti morgunmatur sem ég hef á ævi minni borðað þar sem við borðuðum á okkur gat og fengum svo danskennslu í eftirrétt.
Ég held að það sé bara réttast að láta myndirnar helgarinnar tala sínu......

hnm......þar sem þau tvö koma saman, það er ekki við öðru að búast en að hlægja sig máttlausan..

Þetta eru Allan, Emelina og Hannia. Allan er sem sagt danski strákurinn sem er að vinna í CINPE sem leigir herbergi hjá Hannia.

Hérna er Emelina að reyna að kenna okkur Olgu að dansa, en það var nú ekki að ganga neitt enda er ekki fræðilegur möguleiki að gera svona mjaðmahnykki!! ;) hehe


Hérna setti Hannia upp hálfgerðan leikþátt þar sem hún sýndi okkur hvernig krakkarnir bjuggu til gervitennur þegar hún var lítil. Myndin ein sýnir hvað hún er alveg rosalega flippuð og fráær..:D

Allavega, ég held að það sé best að fara að koma sér að verki......
Bið að heilsa öllum og farið vel með ykkur :)
kv. Eva

Um okkur

  • Við erum nemar á 2. ári í samfélags og hagþróunarfræði við háskólann á Akureyri. Við erum á leiðinni til Nicaragua og Costa Rika í apríl að vinna að rannsóknarverkefni á félagslegum þáttum orkunotkunar. Hér getið þið fylgst með okkur!
Um okkur
eXTReMe Tracker